Erum við of upptekin til að njóta þess að vera til?
- Margrét
- Feb 8, 2016
- 2 min read

Í héraðsfréttablaði okkar Skagfirðinga Feyki, er einn dálkur sem heitir Áskorendapenninn. Fyrir skemmstu fékk ég áskorun um að skrifa í blaðið og langar mig að deila því með ykkur. Það kemur hér:
Það var ýmislegt sem kom upp í huga minn þegar Edda María, samstarfskona mín, skoraði á mig að vera næsti áskorendapenni Feykis. Mér datt fyrst í hug að skrifa um eitthvað sem tengjast starfi mínu sem náms- og starfsráðgjafi eins og mikilvægi þess að einstaklingar fái þá náms- og starfsráðgjöf og fræðslu sem þeir eiga rétt á skv. lögum eða mikilvægi þess að nemendur sem eru að glíma við einhvers konar námserfiðleika fái aðstoð við að finna þau tæki og tækni sem geta hjálpað. Ég ákvað hins vegar að líta mér enn nær og skrifa um stærsta og mikilvægast hlutverkið sem ég sinni og það er foreldrahlutverkið.
Ég er svo heppin að vera móðir tveggja stúlkna og stúpmóðir tveggja drengja. Drengirnir eru fluttir að heiman og farnir að lifa sínu fullorðinslífi en stúlkurnar mínar eru enn í grunnskóla og lifum við því og hrærumst í því umhverfi sem honum tengist. Líf grunnskólabarna er ekki alveg einfalt. Það er ekki nóg með að það þurfi að mæta í skólann daglega og læra heima heldur er ýmislegt annað sem grunnskólabörn taka sér fyrir hendur. Þar má nefna íþróttaæfingar, tónlistarskóla, ýmiss konar frístundastarf, vinahópa og afmæli auk ýmissa viðburða sem tengjast skólanum. Ég fæ það oft á tilfinninguna að það sé full vinna að fylgjast með öllu því sem börnin eru að gera, passa að þau mæti á réttum tíma hér og þar og gleymi engu sem máli skiptir. Auk alls þess sem börnin taka þátt í þá erum við foreldrarnir oft á tíðum ansi uppteknir bæði við vinnu og frístundir.
Ég hef oft velt því fyrir mér í öllu þessu praktíska skipulagi hversdagsins hvort við séum kannski of upptekin til að njóta þess einfaldlega að vera til. Hversu oft setjumst við t.d. niður og raunverulega hlustum á það sem börnin okkar eða maki hafa að segja (þá á ég við án þess að vera í símanum á meðan!)? Hversu oft fáum við okkur göngutúr eða förum í sundferð þar sem áherslan er eingöngu á að njóta þess að vera saman án þess að vera uppfull af því að við séum að missa af einhverju einhversstaðar? Þegar öllu er á botninn hvolft þá kemur þessi tími ekki aftur og það sem í mínum huga er mikilvægast í þessu lífi er að skapa góðar minningar með mínum nánustu.
Ég er svo heppin að vinna með börnum og ungmennum dags daglega og fyrir skemmstu kom til mín barn til að biðja um ráð. Spurning barnsins var á þessa leið: ,,Hvað get ég gert til að fá mömmu og pabba til að hætta að vera alltaf í símanum og hlusta á mig?" Svarið ætla ég að láta ykkur um en spurningin fékk mig allavega til að hugsa minn gang. Hvað er það sem er svo mikilvægt að við getum ekki litið upp úr því og hlustað á það sem börnin okkar hafa að segja? Hvaða skilaboð erum við að senda þeim með því að gefa okkur ekki tíma til að taka þátt í þeirra daglega lífi? Hvernig fyrirmyndir erum við og hvernig einstaklinga erum við að móta til framtíðar?
Þegar stórt er spurt...
Comments