top of page

Lesblinda - ef eitthvað er mér hjartans mál!


Það er alltaf áhugavert að lesa rannsóknir og sérstaklega þegar maður hefur mikinn áhuga á viðfangsefninu. Björg Guðmundsdóttir Hammer gerði rannsókn til M.Ed. gráðu árið 2012 sem ber heitið: Skólaganga nemenda með lesblindu: námsaðferðir og sjálfstraust átta nemenda með lesblindu. Hún tók viðtal við einstaklinga á mismunandi aldri sem eiga það sameiginlegt að vera greindir lesblindir. Það er skemmst frá því að segja að upplifun þessara einstaklinga af skóla og námi er misjöfn og ekki alltaf jákvæð. Þau höfðu ólíka sögu að segja af þeirri aðstoð sem þau fengu í skóla og hvert leið þeirra lá að grunnskóla loknum. Ég verð alltaf hálf sorgmædd þegar ég les um hversu illa skólakerfið var í stakk búið hér í eina tíð til að aðstoða nemendur með námserfiðleika. Væntanlega var um að kenna þekkingarleysi á þeim vanda sem nemendur áttu við að etja og úrræðaleysi í þokkabót. Allt of margir fullorðnir lesblindir einstaklingar lýsa neikvæðri upplifun af skólakerfinu, tossastimplun og skilningsleysi þeirra fullorðnu. Ég vona að þetta sé smátt og smátt að verða liðin tíð.

Í dag búum við yfir mikilli þekkingu á lesblindu og öðrum lestrar- og námserfiðleikum. Það er búið að rannsaka þetta fyrirbæri fram og tilbaka og sérfræðingarnir sem grúskað hafa hvað mest í þessu hafa gefið greinargóðar upplýsingar um hvernig hægt er að takast á við þessa erfiðleika. Í rannsókninni fer Björg yfir nokkuð mörg atriði sem gagnast hafa lesblindum í námi og vitnar í góðar rannsóknir og fræðigreinar máli sínu til stuðnings. Ég hvet ykkur eindregið til að renna yfir þessa rannsókn.

Mín skoðun er sú að við sem höfum valið að vinna í skólakerfinu eigum að vera sérfræðingar í námi allra barna, alveg sama við hvaða vanda þau eiga að etja. Ef við erum ekki nógu vel að okkur t.d. í námsaðferðum lesblindra barna, þá ber okkur skylda til að afla okkur nauðsynlegra upplýsinga til að geta unnið vinnuna okkar. Það vill nefnilega þannig til að það eru lesblindir nemendur í öllum skólum landsins ef ekki í öllum bekkjum. Markmiðið okkar á alltaf að vera að vera besta útgáfan af okkur sjálfum og velta því fyrir okkur á hverjum einasta degi hvort við séum kennarinn eða náms- og starfsráðgjafinn sem við viljum að barnið okkar hafi.

Ég hef reynt í mínu starfi að afla mér upplýsinga um það sem ég tel mig ekki hafa nógu góða þekkingu á. Ég er enginn sérfræðingur í lestrarnámi en ég tel mig vera sérfræðing í námsaðferðum, hvort sem um er að ræða lesblindra barna, barna með annars konar vanda eða barna sem eru svo heppin að eiga ekki við neinn námsvanda að etja. Hlutverk náms- og starfsráðgjafa er að mínu mati m.a. að aðstoða kennara, nemendur og foreldra við að finna leiðir sem henta hverjum og einum. Lesblind börn eru eins misjöfn og þau eru mörg og námsaðferðirnar sem henta þeim einnig.

Við höfum engar ,,afsakanir" í dag til að koma ekki til móts við þarfir allra nemenda. Við þurfum einfaldlega að vera fagmenn og leita allra leiða til að aðstoða nemendur okkar, hér undir er ekki síst samstarf við foreldra og nemendur sjálfa sem alltaf hafa síðasta orðið um hvort þeir eru tilbúnir til að þiggja þann stuðning og þá aðstoð sem í boði er. Allir geta eitthvað en enginn getur allt, þetta á jafnt við um nemendur, foreldra, kennara og náms- og starfsráðgjafa. Það er einmitt þess vegna sem við eigum að nýta og nota hvort annað því þannig verðum við sterkari. Það eiga allir nemendur rétt á að eiga jákvæða og uppbyggilega skólagöngu á sínum forsendum.

Úff, púff....ég viðurkenni vel að þetta er mér mikið hjartans mál. Númer eitt, tvö og tíu þá snýst þetta um líf og framtíð frábærra einstaklinga sem við sem vinnum í skólakerfinu erum svo heppin að fá að vera hluti af. Gerum það vel, þau eiga það svo sannarlega skilið, börnin okkar.


Featured Posts
Nýjustu færslur
Safn
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page