top of page

Námstækni 21. aldarinnar

  • Margrét
  • Sep 24, 2015
  • 2 min read

Undanfarið hef ég verið svo heppin að fá að halda námskeið um námstækni 21. aldarinnar bæði fyrir tæplega 60 náms- og starfsráðgjafa frá öllum skólastigum og atvinnulífinu sem og starfsfólk framhaldsskóla. Þetta er virkilega skemmtilegt verkefni sem ég vonast til að fá að vinna meira að á næstunni, ekki hvað síst á mínum vettvangi sem er grunnskólinn.


Það er greinilegt að það er víða í skólakerfinu full ástæða til að skoða þær náms- og kennsluaðferðir sem við erum að nota og kenna nemendum okkar og velta því upp hvort við séum virkilega að nota aðferðir sem gagnast nemendum okkar til framtíðar. Við megum ekki gleyma því að hluti þeirra nemenda sem í dag eru í grunn- og framhaldsskólakerfinu eiga eftir að sinna störfum í framtíðinni sem ekki eru til í dag. Við þurfum því stanslaust að velta því upp hvað er nauðsynlegt fyrir þau að læra og kunna til að geta tekist á við svo óráðna framtíð.


Eitt af því mikilvægast sem við kennum nemendum okkar í dag er að læra að nýta og nota tæknina til náms og starfa. Þau þurfa að læra að vera gagnrýnin á það sem þau sjá og heyra, læra að vega og meta hvað er gott og hvað ekki og velja síðan og hafna út frá því hvað þau telja að henti sér best. Ég hef verið þeirrar ánægju aðnjótandi að fá að sýna nemendum á mismunandi aldri nokkrar leiðir sem gætu mögulega hentað þeim í námi. Þau hafa fengið það verkefni að prófa sig áfram og láta mig vita hvað gagnast þeim og hvað ekki og það er virkilega áhugavert að sjá hvað þau komast upp á lagið með og telja að henti sér best. Það er jafn misjafnt og þau eru mörg.


Það sem ég hef einna mest kennt nemendum mínum að nota undanfarið er GAFE eða Google Apps for Education, Evernote, Notability, SnapType, Hljóðbækur í gegnum iZip, Drive og Cloud Indeed, MindMup og fleiri hugarkortaöpp svo eitthvað sé nefnt (setjið bendilinn yfir nöfnin, smellið á hlekkinn og skoðið þetta betur). Allt er þetta gott og gilt í ákveðnum tilgangi en það þarf að kenna nemendum að nýta sér þessi hjálpartæki til náms. Til að svo megi verða er mikilvægt að kennarar, náms- og starfsráðgjafar og aðrir sem vinna með nemendum kunni svolítið á þetta allt saman. Því það er með þetta eins og allt annað, þú kennir ekki á það sem þú kannt ekki sjálfur.


Svo hvernig væri að við byrjuðum á okkur sjálfum. Förum að grúska og prófa okkur áfram. Það er óþarfi að gleypa heiminn en það væri t.d. hægt að byrja á að kynna sér GAFE eða Evernote því hvorutveggja gagnast ansi mörgum bæði starfsfólki og nemendum. Það má líkja þessu við að borða fíl - maður verður að taka einn bita í einu, að öðrum kosti er verkefnið óyfirstíganlegt.


Áhugasömum er velkomið að hafa samband við mig fyrir frekari upplýsingar og ráðgjöf.


 
 
 

Comments


Featured Posts
Nýjustu færslur
Safn
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page