top of page

Að eiga sælan sunnudag og slappa af

Fyrirsögnin er fengin að láni úr lagi sem hljómsveitin Stjórnin söng hér um árið og kom upp í huga minn þegar ég settist í sófann með kaffið mitt, eftir að hafa tekið til hendinni í húsinu mínu fyrri part dags.

Það er fátt notalegra en að geta slakað á annað slagið og einfaldlega notið þess að vera til. Það eru ákveðin forréttindi að geta hitað sér góðan kaffibolla og sest í sófann með tölvuna eða góða bók og verið svolítið einn með sjálfum sér. Ég held að það sé öllum hollt að geta notið samvista við sjálfan sig. Það er á þessum stundum sem við áttum okkur á hvað það er sem skiptir máli. Fjölskylda og vinir koma fyrst upp í hugann, en hjá mér er það ekki síst það að hafa tækifæri til að sinna hugðarefnum mínum sem tengjast starfinu mínu sem náms- og starfsráðgjafi.

Á nýafstaðinni ráðstefnu um upplýsingatækni í skólastarfi UTís 2015 fékk ég einmitt mörg tækifæri til þess að sinna einu af hugðarefnum mínum. Á ráðstefnunni var samankominn frábær hópur af fagfólki sem á það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á upplýsingatækni og skólastarfi og er framarlega á sínu sviði. Þarna varð til ómetanlegt tengslanet sem ég og aðrir sem þarna voru, komum til með að njóta góðs af. Þarna urðu til hugmyndir að alls kyns verkefnum og ástandið var t.d. þannig á þessu heimili kl. 7 í morgun að ég varð að fara á fætur til að koma hugmyndunum mínum á blað áður en hausinn á mér myndi springa.

Það er ótrúlega gaman að hafa fengið tækifæri til að taka á móti öllu þessu flotta fólki og finna að það sem fyrir ári síðan var ekkert annað en hugmynd á blaði gat orðið að veruleika. Viðbrögð gestanna okkar eru á þá leið að draumurinn um árlegan viðburð á Sauðárkróki getur væntanlega orðið að veruleika. En áður en að því kemur ætla ég að halda áfram að eiga sælan sunnudag og slappa af.


Featured Posts
Nýjustu færslur
Safn
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page