top of page

Hvað ætlarðu að verða?


Ég var ekki há í loftinu þegar ég var fyrst spurð að því hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Ég hafði svörin á reiðum höndum eins og flestar litlar stúlkur; hárgreiðslukona og búðarkona. Ég átti mér einnig draum um að verða söngkona eða tónlistarkona, lögga eða kennari og seinna meir ætlaði ég í stjórnmálafræði eða viðskiptafræði. Ég prófaði bæði raungreinabraut, félagsfræðibraut og viðskiptabraut í menntaskóla og útskrifaðist loks af hagfræðibraut. Ég byrjaði í kennaranámi en fann mig ekki og endaði loks í félagsráðgjafanámi í Danmörku nokkrum árum eftir stúdentinn. Þar fannst mér ég vera komin á sporið en fann þó ekki hilluna mína fyrr en ég uppgötvaði nám í náms- og starfsráðgjöf. Þegar sá tímapunktur var loksins kominn var ég að nálgast fertugt og kannski kominn tími til að verða það sem mig langaði til að verða þegar ég yrði stór.


En hver er tilgangurinn með því að skrifa þessa grein og segja ykkur frá æskudraumum mínum um allt það sem mig langaði til að verða þegar ég yrði stór. Jú, tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hvetja börn, unglinga og fullorðna til að huga að þessum draumum, leyfa þeim að þróast og þroskast. Leyfa sér að skoða allt sem er í boði, velja og hafna, skipta um skoðun og vonandi á endanum að finna sína hillu. Fyrir suma er þetta ekkert mál en fyrir aðra er þetta eitt það erfiðasta sem þeir hafa gert. Að reyna að ákveða hvað mann langar að starfa við sem fullorðinn einstaklingur og komast að því hvaða leiðir maður þarf að fara til að geta sinnt því starfi.


Ég hef hitt fullorðið fólk sem hefur frá unga aldri starfað við draumastarfið sitt og skilur ekki hvernig það getur verið eitthvað mál að ákveða hvað maður ætlar að gera. Ég hef líka hitt fullorðið fólk sem enn hefur ekki ákveðið hvað það vill starfa við og er mjög leitandi bæði að námi og starfi. Það vekur því ekki furðu mína sem náms- og starfsráðgjafi í grunnskóla að nemendur sem eru að útskrifast úr 10. bekk eigi í vandræðum með að ákveða hvað þeir eigi að taka sér fyrir hendur að loknum grunnskóla.


Í dag er tíðin þó önnur en áður var því í flestum grunnskólum starfa einmitt náms- og starfsráðgjafar sem geta aðstoðað við þessa erfiðu ákvörðun. Með því er ég ekki að segja að nemendur sem útskrifast úr grunnskólum í dag viti hvað þeir ætli að verða þegar þeir eru orðnir fullorðnir. Það er alls ekki raunin því framboðið af námi og störfum er svo gríðarlegt að það er meira en að segja það að taka ákvörðun um framtíðina. Það sem mér finnst hins vegar skipta máli er að nemendur fái tækifæri til að kynnast ólíkum störfum í gegnum náms- og starfsfræðslu grunnskólanna. Átti sig á fjölbreytileika atvinnulífsins og þeirri staðreynd að þau þurfa ekki, 16 ára gömul, að vita nákvæmlega hvað þau ætla að verða. Þau þurfa að þekkja hvaða leiðir eru færar, hvað skólakerfið hefur uppá að bjóða og fyrst og fremst þurfa þau að þekkja sig, styrkleika sína og veikleika, til að geta valið út frá þeim. Það er meira að segja svo, að þau störf sem sum þeirra eiga eftir að starfa við í framtíðinni eru ekki einu sinni til í dag svo hvernig eiga þau þá að vita að það er einmitt það sem þau langar til að verða?


Það er skoðun mín að náms- og starfsfræðsla eigi að byrja strax í yngstu bekkjum grunnskóla því eins og fram kom hér í upphafi eru börn farin að spá í framtíðina ansi snemma. Með samfelldri fræðslu um nám og störf eru meiri líkur á að þekking barna á vinnumarkaðinum og námsumhverfinu sé það góð að þau hafi raunverulegar forsendur til að velja sér framtíðar nám og starf. Í öllum grunnskólum ætti að vera til náms- og starfsfræðsluáætlun þar sem áhersla er lögð á hvernig grunnskólinn ætlar sér að sinna því mikilvæga hlutverki sem fræðsla um nám og störf er, með það að markmiði að undirbúa börnin okkar undir eina af erfiðari ákvörðunum framtíðarinnar - Hvað vil ég verða. Til að slík áætlun líti dagsins ljós þarf að vera samstaða um með hvaða hætti náms- og starfsfræðsla fari fram í skólunum, hver sinnir henni, hvaða tíma slík fræðsla fær til ráðstöfunar og fleiri þættir. Ég hef haft tækifæri til að vinna að gerða slíkrar áætlunar í mínum skólan en enn er langt í land svo náms- og starfsfræðsla megi teljast fullnægjandi. Ég vona þó svo sannarlega að smátt og smátt átti fræðsluyfirvöld sig á hversu gríðarlega mikilvægur þessi þáttur er í námi bananna okkar því eftir því sem ég best veit er eitt af aðalmarkmiðum Aðalnámskrár grunnskóla að búa nemendur undir nám og störf. Ég ætla að leggja mitt af mörkum því ég veit í dag hversu miklu máli það skiptir að vera í starfi sem maður hefur áhuga á og getur kallað draumastarfið sitt. Það er ekki sjálfgefið að finna hilluna sína en það er svo sannarlega þess virði að leita að henni. Ef þú ert ekki þar, þá skora ég á þig að halda áfram að leita :)




Featured Posts
Nýjustu færslur
Safn
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page