top of page

One size fits all - einmitt!


Þessi frasi á jafn illa við um nám og kennslu og sokkabuxur. Þið vitið það sem hafið reynt að troða ykkur í þannig buxur að það er gjörsamlega vonlaust að ein stærð passi öllum. Þannig er því líka farið með nám. Það er gjörsamlega vonlaust að ætla að ein og sama aðferðin henti öllum, hvort sem um er að ræða náms- eða kennsluaðferð. Og þar með er komin inngangur að öðru hugðarefni mínu en það tengist námsaðferðum og hvernig hverjum og einum hentar best að læra.


Það var virkilega gamana að lesa athugasemdirnar frá ykkur og sjá hvað fyrsta bloggið mitt var lesið af mörgum. Ég talaði um það þá að ég væri sérfræðingur í námsaðferðum barna. Mér finnst alveg ómögulegt að segjast vera sérfræðingur í einhverju án þess að rökstyðja það neitt frekar svo hér er komin tilraun til þess.


Áhugi minn á því hvernig við lærum hefur lengi verið til staðar og erfitt að segja til um hvort það sé eitthvað eitt atvik frekar en annað sem varð til þess að ég ákvað að skoða þetta betur. Ég notaði tækifærið þegar kom að því skrifa mastersritgerð að skoða námsaðferðir barna. Rannsóknin mín, sem ber heitið: „Svona finnst mér best að læra.“ Skoðanir barna á námi, námsaðferðum og þeim sjálfum sem námsmönnum, var gerð á árunum 2010-2011 og var eigindleg rannsókn þar sem ég tók viðtöl við 12 nemendur í 6. bekk í grunnskóla og spurði þau út í námsaðferðirnar sínar. Ég komst að þeirri niðurstöðu að nemendur vissu almennt hvernig þeim þætti best að læra en það var eins misjafnt og þau voru mörg. Flest þeirra höfðu hins vegar ekki tækifæri til að nota sínar uppáhalds námsaðferðir í skólanum því þar gerðu þau bara eins og kennarinn sagði þeim að gera.


Mér þótti áhugavert að svona ungir krakkar gerðu sér grein fyrir hvernig þeim þætti gott að læra. Þau voru samt ekkert að spá í þetta og áttuðu sig ekki á að hér væri um að ræða ólíkar námsaðferðir. Það sem var líka athyglisvert var að það hafði enginn spurt þau áður hvernig þeim þætti best að læra og þeim datt ekki til hugar að nefna það, t.d. við kennarann, að þau gætu hugsað sér að gera hlutina öðruvísi en hann lagði upp með. Ég tek þó fram að þetta átti ekki við um alla nemendur, því innanum voru krakkar sem voru ekkert að spá í þetta og höfðu ekki hugmynd um hvernig þeim þótti best að læra.


Þessi vinna varð til þess að ég hef grúskað mjög mikið í alls kyns námsaðferðum og hvað hentar hverjum og einum. Ég hef undanfarin ár haldið nokkra fyrirlestra um námsaðferðir barna og mikilvægi þess að kennarar og foreldrar gefi börnum tækifæri til að prófa sig áfram með hvernig þeim hentar best að læra. Það er talað um að sumum henti best að læra með því að lesa og skrifa, öðrum með því að horfa og sjá, enn öðrum að tala og hlusta og að lokum eru það þeir sem þurfa að framkvæma. Einnig er til fjölþátta námsaðferð þar sem fleiri en einni aðferð er blandað saman. Þetta er ekki eina hugmyndafræðin varðandi námsaðferðir, en þeir sem vilja lesa meira geta kíkt á rannsóknina mína. Þar er vísað í ýmsar heimildir sem sumir hefðu gaman af að skoða.


Það að átta sig á hvaða námsaðferð hentar er fyrst og fremst sjálfsskoðun. Náms- og starfsráðgjafar og kennarar geta aðstoðað nemendur við að átta sig á hvað hentar en fyrst og fremst þarf nemandinn sjálfur að vera tilbúinn til að skoða sjálfan sig og vera tilbúinn til að gera breytingar ef þess þarf. Það er með þetta eins og allt annað. Það er endalaust hægt að kenna hinar ýmsu aðferðir við nám en það er vita gagnslaust ef það er ekki notað. Er þetta ekki bara eins og með svo margt annað t.d. hreyfingu og mataræði? Við vitum hvað er gott fyrir okkur en gleymum okkur bara, nú eða nennum ekki að pæla í því. Við gerum bara eins og við höfum alltaf gert án þess endilega að það sé að skila okkur einhverjum rosa árangri. Við vitum kannski hvað væri betra fyrir okkur að gera en það er smá mál að breyta því og þess vegna gerum við það ekki.

Að þessu sögðu þá er mín skoðum sú að við eigum að kenna börnum strax frá upphafi að þekkkja styrkleika sína og veikleika í námi og hvernig þeim hentar best að læra. Markmiðið hlýtur alltaf að vera að hver og einn nái sínum hámarksárangri í námi og starfi með þeim aðferðum sem honum hentar. One size fits all - sorry - það er bara ekki rétt!


Featured Posts
Nýjustu færslur
Safn
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page