
Margrét Björk Arnardóttir
Hver er ég?
Ég heiti Margrét Björk Arnardóttir og er menntaður náms- og starfsráðgjafi frá Háskóla Íslands og félagsráðgjafi frá Den Sociale Höjskole Í Odense, nú UCL Odense. Ég hef starfað sem náms- og starfsráðgjafi í Árskóla á Sauðárkróki með hléum frá árinu 2002. Ég hef einnig starfað í Breiðholtsskóla, hjá Farskólanum - miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra og í Háskólanum á Hólum. Ég hef lagt mikla áherslu á endurmenntun og hef sótt fjölmörg endurmenntunarnámskeið bæði hérlendis og erlendis auk þess að leggja rækt við mína eigin persónulegu endurmenntun.
Ég hef mikinn áhuga á öllu sem tengist tölvum og upplýsingatækni sem nýtist nemendum, kennurum og náms- og starfsráðgjöfum í námi og starfi. Ég hef á undanförnum árum verið að læra meira í þessum efnum sem vonandi skilar sér til nemenda minna. Ég hef útbúið náms- og starfsráðgjafaráætlun fyrir Árskóla þar sem áhersla er m.a. lögð á aukna náms- og starfsfræðslu. Þetta er spennandi verkefni sem á eftir að þróast í takt við tímann og tæknina.
Nýverið var ég kosin í stjórn Félags náms- og starfsráðgjafa, FNS, þar sem ég sit sem fulltrúi norræns samstarfs auk þess að sitja í upplýsinga- og samskiptanefnd félagsins.
Twitter er einn af þeim samfélagsmiðlum sem ég nota mikið í mína persónulegu endurmenntun. Þar hef ég m.a. tekið þátt í spjallinu #menntaspjall sem hófst í janúar 2014 og fer fram annan hvern sunnudag yfir skólaárið. Eins og sjá má á þessu yfirliti hafa ýmis áhugaverð málefni verið til umfjöllunar. Á vordögum stofnaði ég síðan #nsspjall sem er hugsað fyrir náms- og starfsráðgjafa og verður virkjað á næsta skólaári.