top of page

Ég hef ekki tíma... eða hvað?

Það er ótrúlega algengt að maður heyri fólk tala um tímaskort. Ég hef oftar en ekki sjálf dottið í þessa gryfju að finnast ég ekki hafa tíma til að gera hitt og þetta. Ég hugsaði mikið um þetta í gærkvöldi, þar sem ég sat í frábærum hópi fólks sem hefur gríðarlega mikinn áhuga á skólamálum og upplýsingatækni. Það virðist nefnilega vera svo, að þegar við höfum mikinn áhuga á einhverju þá höfum við tíma til að sinna því.

Við stöndum frammi fyrir því á hverjum einasta degi að þurfa að forgangsraða. Það er eitt í dag og annað á morgun, fjölskyldan, vinirnir, vinnan, áhugamálin eða hver svo sem röðin er á þessu hjá okkur. Við þurfum að gefa þessu tíma. Ég ákvað sem sagt í gær að hætta að velta mér uppúr því sem ég hef ekki tíma til að sinna og huga að því sem ég eyði tímanum mínum í. Ég hef grun um að þegar öllu er á botninn hvolft þá hafi ég meiri tíma en ég geri mér grein fyrir til að sinna því sem ég vil sinna. Þetta er eins og áður hefur komið fram, allt spurning um forgangsröðun. Mitt fyrsta verk í morgun var því að setjast við skriftir, eitthvað sem ég hef ekki gefið mér tíma til að gera, og blogga um þessar vangaveltur mínar. Það tókst, á ótrúlega skömmum tíma, svo þá er ekki annað í stöðunni en vinda sér í næsta verkefni dagsins sem er UTís 2015, vinnu- og menntabúðir um upplýsingatækni í skólastarfi sem ég og félagi minn Ingvi Hrannar stöndum fyrir þessa dagana. Ótrúlega spennandi verkefni sem verður væntanlega viðfangsefni næsta bloggs. En það er enginn sem segir að bloggið þurfi að fylla heila A4 síðu svo stutt og laggott verður það að þessu sinni.


Featured Posts
Nýjustu færslur
Safn
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page