top of page

Stóru steinarnir


Ég heyrðu einu sinni sögu sem ég hef oft vitnað í og langar til að deila með ykkur. Það eru eflaust til fleiri en ein útgáfa af sögunni en boðskapur hennar er sá sami.


Sagan fjallar um gamlan háskólaprófessor sem var að tala fyrir framan hóp háskólanema. Til að koma merkingunni almennilega til skila notaði hann sýnikennslu sem nemendurnir gleyma aldrei.

Þar sem hann stóð fyrir framan þennan hóp af metnaðarfullu fólki sagði hann: ,,Jæja, þá skulum við hafa próf.“ Hann tók upp 5 lítra krukku með stóru víðu opi og setti hana á borðið fyrir framan sig. Svo tók hann um það bil 10 hnefastóra steina og varfærnislega kom hann þeim fyrir í krukkunni, einum af öðrum. Þegar krukkan var full og ekki hægt að koma fleiri steinum í hana spurði hann: ”Er krukkan full?“ Allir í bekknum svöruðu já. ”Jæja“ sagði hann. Hann teygði sig undir borðið og tók upp fötu með möl. Því næst sturtaði hann smá möl í krukkuna og hristi hana um leið, sem orsakaði það að mölin komst niður í holrúmin á milli stóru steinanna. Svo spurði hann hópinn aftur: ”Er krukkan full?“ Í þetta sinn grunaði nemana hvað hann var að fara. ”Sennilega ekki“ svaraði einn neminn. Hann teygði sig undir borðið og tók upp fötu af sandi. Hann hellti úr henni í krukkuna og sandurinn rann í öll holrýmin sem eftir voru milli malarinnar og stóru steinanna. Enn spurði hann: ”Er krukkan full?“ ”Nei!“ æptu nemendurnir. Aftur svaraði hann. Gott!” Hann tók því næst könnu af vatni og hellti í krukkuna þar til hún var alveg full. Svo leit hann á bekkinn og spurði. “Hver er tilgangur þessarar sýnikennslu?” Einn uppveðraður nemandi rétti upp hönd og sagði: “Tilgangurinn er að sýna að það er sama hversu full dagskráin hjá þér er. Ef þú virkilega reynir geturðu alltaf bætt fleiri hlutum við!” “Nei” svaraði prófessorinn. “Það er ekki það sem þetta snýst um. Sannleikurinn sem þetta dæmi kennir okkur er þessi: Ef þú setur ekki stóru steinana í fyrst, þá kemurðu þeim aldrei fyrir.” Hverjir eru stóru steinarnir í þínu lífi? Þetta er spurning sem ég held að við ættum öll að velta fyrir okkur í upphafi nýs ár. Hvaða steinar skipta þig máli? Eru það börnin þín, fjölskyldan þín, menntunin þín eða vinnan? Draumarnir þínir, heilsan þín, áhugamálin þín eða eitthað allt annað?

Ef þú veltir þér upp úr litlu hlutunum (mölin, sandurinn, vatnið) fyllirðu líf þitt með litlum hlutum sem skipta í raun ekki máli og þú munt aldrei hafa þann tíma sem þú þarft til að eyða í stóru mikilvægu hlutina í þínu lífi (stóru steinarnir). Hversu miklu máli skipta t.d. skítugu sokkarnir á gólfinu eða blauta handklæðið í íþróttatöskunni þegar öllu er á botninn hvolft?


Ég óska ykkur öllum gæfu og gleði á nýju ári og hvet ykkur til að spyrja ykkur þessarar spurningar: Hverjir eru stóru steinarnir í mínu lífi og hvernig ætla ég að passa að hafa alltaf pláss fyrir þá?


Featured Posts
Nýjustu færslur
Safn
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page